Eftirfarandi grein birtist í blaði umhyggju í desember ´20

Höfundur: Halldóra Hanna Halldórsdóttir

Hvað er markþjálfun og gæti þessi samtalsaðferð verið eitthvað fyrir þig? 

Við búum öll yfir þeim krafti sem á þarf að halda til að skapa okkur innihaldsríkt líf. Við þurfum bara aðstoð við að finna þennan kraft, lyfta honum upp og að leysa hann úr læðingi. Leiðin að innihaldsríkara lífi er alls ekki bein og engin uppskrift til sem hentar öllum. Mig langar til að kynna fyrir þér hvað markþjálfun er, lesandi góður, og segja þér aðeins frá mér sjálfri og hvernig markþjálfun hefur hjálpað mér sem foreldri langveiks barns. 

Það var eitt kvöldið núna um daginn sem ég sá ég svo fallega lýsingu á þessari faggrein í pistli frá vinkonu minni, menntunarfræðingnum og markþjálfanum Ingibjörgu Kristínu Ferdinandsdóttur. „Markþjálfun er þverfagleg fræðigrein sem byggir í grunninn á heimspeki, sálfræði, stjórnunarfræðum, fullorðinsfræðslu (andragogyu), kennslu og uppeldisfræðum. Margar samtalsmeðferðir leggja áherslu á að vinna með persónuleg málefni tengd fortíðinni en markþjálfun leggur áherslu á núið og að horfa fram á veginn, að vinna einlæglega og hvetjandi með möguleikana sem búa í manneskjunni. Markþjálfi hjálpar fólki á uppbyggilegan hátt að stefna að settu marki og að upplifa gleðina sem felst í framkvæmd og virki. Í markþjálfun kemur þú til mín, til þess að hitta þig. Þetta er í rauninni eflandi sjálfsþekkingarsamtal“. 

Mér þykir þessi lýsing á markþjálfun ótrúlega falleg. Hvert og eitt samtal er venjulega um klukkustund og hentar markþjálfun vel fyrir bæði einstaklinga, pör og hópa. Til þess að þú náir góðum árangri að þá er mælst til þess að maður mæti í nokkra tíma í markþjálfun en það er mjög persónubundið hvað hver og einn þarf marga tíma. Í upphafi er gott að skoða endann, þess vegna er farið yfir það í fyrsta tíma hvert heildarmarkmið þitt er og hvað þú vilt vera komin með eftir x langan tíma. 

Þú þarft alls ekki að vera með nein fyrirfram ákveðin markmið til þess að vinna að heldur þarftu einungis að hafa áhuga á því að lifa ennþá innihaldsríkara lífi frá og með deginum í dag. Í svona samtali er algengt að viðhorfsbreytingar eigi sér stað og í kjölfar þess geta gerst mjög jákvæðar breytingar í þínu lífi ef þú ert tilbúin/n til þess að vinna að ákveðnum heimaverkefnum á milli tíma. Það sem mér þykir svo fallegt við þessa aðferð er að markþjálfi er aldrei ráðgjafi heldur mun hann aðstoða þig við að finna þín eigin ráð og þínar lausnir á hlutunum með því að notast við opnar og beinar spurningar sem munu ýta við þér. Hlutverk markþjálfa er að halda utan um ferlið og að skapa rými fyrir skjólstæðinginn til þess að hann geti kafað djúpt inn á við í leit að svörum og þannig lært betur inn á sig.

Í bókinni Markþjálfun – vilji, vit og vissa eftir Mathildu Gregersdotter, Arnór Már Másson og Hauk Inga Jónasson er aðferðinni lýst á þennan veg, „Markþjálfun (e. Coaching) er aðferð sem notuð er til þess að hjálpa fólki að ná meiri árangri í eigin lífi. Það er aðferð sem miðar að því að hjálpa fólki að finna sinn innri styrk og stytta leiðina að ákveðnu markmiði, hvort sem það er persónulegur vöxtur , aukin lífsgæði, bætt starfsumhverfi eða til þess að ná betri árangri og frammistöðu í eigin lífi.“ Markþjálfun – vilji, vit og vissa eftirt Mathildu Gregersdotter, Arnóar Már Másson og Hauk Inga Jónasson. 

Sem foreldri langveiks og fjölfatlaðs drengs þá get ég sagt við þig lesandi góður að þessi aðferð hefur svo sannarlega hjálpað mér alveg gríðarlega mikið. Ég hef fundið minn innri styrk til þess að fara hugsa betur um sjálfa mig og ég hef einnig fundið hugrekkið til að fara eltast við mína innstu drauma þrátt fyrir stórt verkefni heima fyrir. Hjónabandið er líka mun betra og tengslin dýpri og nánari við börnin mín þrjú, það nefnilega byrjar allt og endar hjá okkur sjálfum. Þegar við breytumst til hins betra, þá breytast allir í kringum okkur. Mig langar til að segja ykkur aðeins frá mér og afhverju ég er að kynna fyrir ykkur markþjálfun en ég er menntaður hjúkrunarfræðingur og stefni svo að því að ljúka við framhaldsnám í markþjálfun vorið 2021. Ég bý í Vesturbæ Kópavogs ásamt eiginmanni mínum Eiríki Birki Líndal og börnunum okkar þremur Anítu 14 ára, Jakobi Darra 7 ára (langveikur og fjölfatlaður) og Dagbjörtu Ýrr tæplega 3 ára. Á þessum tæplega 8 árum síðan Jakob Darri kom í heiminn þá hefur lífið verið mikill rússíbani. Í mörg ár var ég föst í þessari hugsun „aumingja ég“. Ég leit á sjálfa mig sem mikið fórnarlamb. Mér fannst þetta allt saman mjög ósanngjarnt og erfitt. Afhverju þurfi ég að eignast fjölfatlað barn? Hvað hafði ég gert til þess að verðskulda þetta? Það var síðan í byrjun árs 2019 sem ég „vakna svolítið upp“ og átta mig þá á því að ég er alls ekki á góðum stað andlega né líkamlega. Verkir hér og þar í skrokknum, mikil neikvæðni, reiði, vanlíðan og óhamingja svo eitthvað sé nefnt. Þarna áttaði ég mig á því að það væri bara um tvennt að ræða. Annað hvort gæti ég haldið áfram með lífið í þessari vanlíðan eða ég gæti stigið skrefið í áttina að betri líðan. Síðan þá eru liðin 2 ár og ég get sagt ykkur að líf mitt er mun innihalds- og hamingjuríkara eftir að ég tók ákvörðun um að stíga skrefið áfram í áttina að betri mér. 

Við getum tekið ákvörðun um það strax í dag að ætla að lifa betra og innihaldsríkara lífi frá og með núna. Ég hef áttað mig á því að mig langar ekki til að sitja á hakanum. Mig langar til að halda áfram með lífið þrátt fyrir að eiga fjölfatlað barn sem er með gríðarlega þunga og mikla umönnunarþörf. 

Ég hef haft þann draum frá því ég man eftir mér að fara starfa við það að lyfta öðru fólki upp. Að styðja við, hvetja og að peppa annað fólk áfram. Ég brenn alveg fyrir það að fá að hjálpa fólki að kafa djúpt inn á við í leit að svörum við þessum stærstu spurningum lífsins „Hver er ég og hvað vill ég verða þegar orðin stór“ og að styðja við fólk sem vill eltast við sína innstu drauma. Ég brenn líka fyrir það að verða betri ég í dag heldur en í gær, þess vegna fer ég sjálf í markþjálfun tvisvar sinnum í mánuði ásamt því að sinna sjálfri mér sem best ég get alla daga með til að mynda hreyfingu, góðri hvíld og hugleiðslu svo eitthvað sé nefnt. 

Haustið 2019 kviknaði hjá mér áhugi á því að fá að markþjálfa foreldra langveikra barna einn daginn. Það var svo núna í haust sem ég fer á fund með stjórn umhyggju og ber undir þau þá hugmynd að fá þeirra aðstoð við að geta boðið foreldrum langveikra barna upp á ódýra markþjálfun. Það er nefnilega svo auðvelt að týna sjálfum sér í svona stóru hlutverki að eiga langveikt barn. Ég þekki það svo vel sjálf. Maður á það til að setja sjálfan sig neðarlega á forgangslistann þegar mörgu mikilvægu þarf að sinna. Markþjálfun hjálpar okkur að forgangsraða rétt og að setja okkur sjálf oftarlega á listann líka. Við þurfum nefnilega að setja súrefnisgrímuna líka á okkur sjálf. 

Að þessu sögðu að þá langar mig til þess að segja ykkur stolt frá því lesendur góðir að frá og með janúar mánuði 2021 að þá getið þið komið til mín í markþjálfunarsamtöl í gegnum umhyggju. Umhyggja tók svona líka vel í þessa hugmynd mína að fá að bjóða ykkur upp á markþjálfun hjá mér. Ég er umhyggju alveg gríðarlega þakklát fyrir þetta tækifæri og mun fara af stað inn í þetta verkefni með miklum heilindum og með miklu þakklæti í hjarta. 

Þú ert svo hjartanlega velkomin til mín í markþjálfun frá og með annarri vikunni í janúar. Ég verð með viðtalsherbergi í húsakynnum umhyggju á suðurlandsbrautinni og mikið sem ég er spennt að fá þig til mín. Mig langar til þess að hvetja þig til þess að prófa markþjálfun hjá mér og að gefa því séns hvort þessi aðferð geti hjálpað þér til þess að lifa ennþá innihaldsríkara lífi.