Ég heiti Halldóra Hanna Halldórsdóttir, flestir kalla mig Dóru. Ég er 35 ára gömul, gift Eiríki Birki Líndal og saman eigum við þrjú börn, Anítu 14 ára, Jakob Darra 8 ára (fjölfatlaður og langveikur) og Dagbjörtu Ýrr 3 ára.


Menntun og reynsla:
Ég er hjúkrunarfræðingur og ACC markþjálfi. Auk þess er ég í framhaldsnámi í markþjálfun og er útskrift þann 12 maí 2021. Einnig hef ég sótt mörg námskeið í sjálfsrækt, hlustað á hljóðvörp og lesið fjölmargar bækur um sjálfsrækt og mannlega hegðun.

Í byrjun árs 2019 var ég alls ekki á góðum stað andlega né líkamlega. Ég hafði lítið sem ekkert hugað að mér sjálfri í alltof langann tíma. Ég vissi varla lengur hver ég var eða hvað ég vildi. Ég vissi ekki einu sinni hver áhugarmálin mín voru. Krónískur höfuðverkur var farin að bæla á sér ásamt hægðatregðu og krónískri vöðvabólgu. Ég var alltaf þreytt, í miklu tilfinningarlegu ójafnvægi og mjög óhamingjusöm með mig sjálfa og lífið almennt . Ég var alveg buguð á líkama & sál og algjörlega aftengd kjarnanum mínum. Á þessum tíma var yngsta dóttir mín tæplega eins árs og það var búið að vera mikið álag á mér, það tók nefnilega talsvert á að bæta litla gullmolanum okkar við annars skrautlegu fjölskylduna okkar. En þessi viðbót, að fá litlu Dagbjörtu Ýrr okkar í heiminn, var alveg dásamleg og það gaf okkur svo sannarlega mikla hamingju og gleði. Það hefur verið dásamlegt að fá að fylgjast með henni þroskast og dafna, afþví það er ekki sjálfsagt að við getum fengið að þroskast með eðlilegum og náttúrulegum hætti. Ekkert er sjálfsagt.

Núna í janúar 2021 eru tvö ár síðan ég tók ákvörðun um að vilja breytingu fyrir mig sjálfa. Þjánining í fórnarlambsgírnum var líka orðin það mikil að ég neyddist eiginlega bara til þess að byrja huga betur að andlegri- og líkamlegri heilsu. Ég hef svo lesið um það í nokkrum bókum að oft þurfi eitthvað svona til, til þess að við hreinlega rönkum við okkur og förum að stíga skrefin í áttina að innihaldsríkara lífi, þar sem við tökum stjórnina á eigin lífi , ábyrgð á okkur sjálfum og verðum loksins skipstjórar í eigin lífi.

Ég vil meina að vilji sé allt sem til þurfi til þess að byrja þetta ferli, ferlið í áttina að sjálfsumhyggju og sjálfsþekkingu. Um leið og við finnum hjá okkur þennan vilja til þess að verða betri við, þá eru okkur allir vegir færir. Það er mikilvægt að byrja á því að taka stöðumat á sjálfum sér, hvar er ég stödd eða staddur akkúrat núna og hvað þarf ég fyrir mig?

Við erum flest öll að leita að hamingju, innri frið, hugarró og jafnvægi. Ekki satt? Að mínu mati er jafnvægi eitthvað sem við þurfum að skapa sjálf og að aðlaga að hverskyns breytingum sem verða á vegi okkar, allt hitt mun koma þegar við höfum tengst okkur sjálfum, kjarnanum okkar og fundið út úr því hver við erum og hvað við viljum.

Markþjálfun er samskiptaaðferð sem hjálpar þér að tengjast þér sjálfri/sjálfum betur. Þetta er í raun og veru sjálfþekkingartól. Þú færð tækifæri til þess að kafa djúpt inn á við í leit að svörum. Ég sjálf hefði viljað kynnast markþjálfun í byrjun minnar sjálfsvinnu, af því að markþjálfun styttir leiðina að því að komast að því hver við erum og hvað við viljum. Við förum beint í að skoða hvað þú þarft og vilt fyrir þig.
Það er gríðarlega mikilvægt að við séum að lifa í takt við okkar gildi og í tengslum við kjarnann okkar. Þar blómstum við nefnilega.

Í dag er mitt lífsmottó að það skiptir öllu máli að við séum að leitast eftir því að fá sem mest út úr lífinu. Við eigum að eltast við okkar innstu drauma, sinna áhugamálum okkar og að gera allt sem okkur langar til að gera.